Viðtal úr jólablaði Morgunblaðsins 2000
| Epli
og snjór í öllum bænum
Hann Júlli í Höfn er nútímamaður sem smíðar vefsíður í frístundum. Um leið er hann maður gamla tímans með áhuga á byggðasögu og siðum. Sigurbjörg Þrastardóttir heimsótti Jólavef Júlla, heimilislega tómstundavefinn sem opnaði fyrir ári og varð heimsþekktur á svipstundu. Dalvík er jólabær eins og þeir gerast sannastir. Þar deila jólasveinarnir út eplum í stað sælgætis, snjórinn kemur stundvíslega í nóvember og jólastjarnan á himninum er í boði Kaupfélagsins. Ja, kannski er ekki alveg hægt að treysta þessu með snjóinn, en öllu öðru má treysta og reyndar fleiru til, því Dalvíkingar eru duglegir við að halda í gamla siði og jafnvel brydda upp á nýjum. Svo áratugum skiptir hafa jólasveinar á grunnskólaaldri borið út jólapóstinn á aðfangadag, bæjarbúar flykkjast til fjölskylduföndurdags í byrjun aðventu og jólasveinarnir úr Böggvisstaðafjalli koma fram á svölum Kaupfélagshússins um miðjan desember við mikinn fögnuð viðstaddra. Engin dádýr á Dalvík Júlíus Júlíusson hefur öllum jólum ævi sinnar eytt á Dalvík. Hann er jólabarn að upplagi og er mikið í mun að viðhalda og varðveita hið sérstaka andrúmsloft sem setur svip á jólahaldið á Dalvík. "Hér hefur lengi verið öflugt félagslíf á ýmsum sviðum og félagvitund bæjarbúa er sterk. Það er eflaust þess vegna sem bæjarbúar eru samstiga í jólaundirbúningi og halda fast í gamla siði," segir Júlíus þegar spurt er um ástæður hópandans á jólaföstunni. Sjálfur segist hann fá jólafiðring strax í nóvember - að því tilskildu þó, að tíðin gefi tilefni til. "Snjórinn er lykilatriði. Ég segi ekki að jólin komi ekki ef jörð er auð, en það skapar allt öðruvísi stemmningu að sjá hvítt lag yfir bænum, á ákveðnum gömlum húsum og stöðum sem maður þekkir." Jólaskapið er þannig nátengt staðnum og Júlíus bætir því við að hann hafi saknað Dalvíkur þegar hann, eitt árið, eyddi aðventunni fyrir sunnan. Nú hefur Júlíus tekið sig til og fært hluta hinnar dalvísku jólastemmningar inn á netið. Mánuði fyrir jólin í fyrra 1999, opnaði hann Jólavef Júlla og fékk hvorki fleiri né færri en 5200 heimsóknir á þremur vikum og hundruðbréfa. Vefurinn geymir jóladagatal með þrautum og sögum, myndir úr byggðarlaginu, endurminningar, jóla kveðjulista, krækjur í aðrar jólasíður og fleira. "Viðbrögðin voru ævintýraleg, miðað við að vefurinn var ekkert auglýstur. Ég sendi bara ábendingar um hann í tölvupósti og svo spurðistþetta út. Einhver sá og sagði öðrum, eins og gengur. Ég fékk tugi bréfa á dag, bæði svör við getraunum og þakkarbréf. Allir sem höfðu samband voru mjög jákvæðir - það verða jú allir svo kærleiksríkir um jólin - en þó var einn sem kom með kvörtun. Í bakgrunninum á aðalsíðunni voru nefni lega dádýramyndir og maðurinn benti mér á að það væru engin dádýr á Dalvík! Svo nú hef ég sett inn nýjarmyndir." Á vefnum í ár verða ýmsar nýjungar en einnig verður haldið áfram meðfasta þætti, svo sem minningar eldra fólks um bernskujólin nyrðra. "Ég hef nefnilega áhuga á því gamla og gömlum tíma. Í þessum lýsingum birtist gleði jólanna gjarnan þrátt fyrir fábrotin hátíðarhöld. Hlýja í litlu koti getur skapað meiri hátíðleika en ríki dæmi og gjafaflóð, því jólin eru jú fyrst og fremst tilfinning." Jólaseríur seldust upp Á Jólavef Júlla í fyrra birtust jóla kveðjur frá fólki víða um land, sem og í útlöndum, þannig að með góðum vilja má halda því fram að vefurinn hafi orðið "heimsþekktur". "Gestirnir á vefnum voru ekki endilega Dalvíkingar, enda er vefurinn öll um ætlaður. En sérstökustu við brögðin voru samt frá Dalvíkingum erlendis sem voru himinlifandi yfir að fá að fylgjast með. Þeir hefðu sennilega faðmað mig og kysst, hefðu þeir náð til mín. Svo vissi ég líka um Dalvíkinga sem voru við laufabrauðsgerð í Reykjavík og höfðu tölvuna við hliðina á sér á meðan brauðin voru skorin." Í ár hyggst Júlli í samstarfi við verslunina Elektro taka myndir í bæn um með reglulegu millibili og birta á vefnum, til þess að sýna þróunina í útiskreytingum eftir því sem á desember líður. Þannig geti fólk fylgst með því hvernig bæjarbragurinn breytist á aðventunni. Og hann viðurkennir að hafa lengi verið veikur fyrir ljósaskreytingum. "Sem gutti gerði ég mér að leik að fara um bæinn og telja aðventuljós. Þetta þróaðist svo út í eins konar fjölskyldusið, því þegar dóttir mín var yngri ókum við gjarnan um bæinn og töldum saman aðventuljósin. Þá athugaði ég líka í leiðinni hvernig skreytingum nágrannanna liði; hvort Toni í Lundi og Árni í Reykholti væru ekki örugglega búnir að setja upp sitt hefðbundna skraut, svo dæmi séu tekin. Ég var ekki í rónni fyrr en allt var komið á sinn stað." Svo var það árið 1996 að Júlíus tók það upp hjá sjálfum sér að efna til jólaskreytingasamkeppni meðal húsanna í bænum. "Mig langaði til þess að efla þennan þátt jólaundirbúningsins og það er skemmst frá því að segja að viðbrögð voru geysileg. Seríur seldust upp, bæði hér og í nágrannabyggðum. Jólaljósasalar á Akureyri vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og spurðu hvað væri eiginlega að gerast inni á Dalvík! Það árið var sem sagt mikið skreytt, en þegar úrslit í keppninni voru tilkynnt, áttaði fólk sig á því að keppnin snerist ekki endilega um magn, heldur gæði. Við dæmum nefnilega eftir því hversu fallegar ljósaskreytingarnar eru, hversu vel þær fara við húsið og svo framvegis. Nú eru margir farnir að hanna eigin skreytingar á húsin sín og víða eru mjög vandaðar og smekklegar skreytingar fyrir jólin," segir Júlli, og á honum má skilja að þar með hafi tilgangnum með samkeppninni verið náð. Með "kortin í sveinana" Aðeins einu sinni á ævinni hefur Júlli misst af jólasveinunum á svölum Kaupfélagsins, föstum þætti í dalvískri aðventu. "Jólasveinarnir koma yfirleitt klukkan þrjú, en krakkarnir eru farnir að safnast saman undir svölunum upp úr hádegi. Mesti spenningurinn er falinn í því að sjá á hvaða farartæki sveinarnir koma, en þeir koma ýmist á sleðum, bát, vörubíl eða öðru sem verkast vill, eftir veðri og færð. Á svölunum syngja þeir og láta viðstadda syngja og koma svo niður og dreifa eplum. Og þetta eru langbestu epli sem maður fær - ég fæ vatn í munninn bara við að minnast á þau og ég fer ennþá niður á torg og fæ mér epli þótt ég ætti kannski að vera vaxinn upp úr því." Í bænum fara svo annars konar jólasveinar á kreik, en það eru grunnskólanemendur sem taka að sér að bera út jólakort bæjarbúa gegn vægri greiðslu. "Þetta kostar smá pening, en hann rennur allur til bókasafns skólans sem er orðið mjög gott. Það er örugglega jólapóstinum að þakka. Tekið er á móti póstinum í skólanum á Þorláksdag og er það kallað "að fara með kortin í sveinana". Svo mæta krakkarnir sem leika jólasveinana á aðfangadag, búa sig í búninga og eru málaðir í framan áður en þeir bera út jólakortin sem skipta þúsundum." Jólasveinapóstur var fyrst borinn út á Dalvík árið 1938. Hugmyndina átti Ásgeir P. Sigurjónsson, kennari, sem nú er látinn en eftir hans dag hafa kennarar við Dalvíkurskóla við haldið siðnum í sjálfboðavinnu og aðstoðað börnin við móttöku og flokkun póstsins. Flest jólasveinaandlit hef ur Steingrímur Þorsteinsson málað í gegnum tíðina, en nú nýtur hann við það aðstoðar sonar síns og barna barns. "Þegar ég var lítill komu jólasvein arnir iðulega með ægilegum látum og börðu allt að utan þar til opnað var. Einu sinni brutu þeir meira að segja rúðu heima, en þeir hafa nú eitthvað mildast með árunum. Á hverju heimili er svo gaukað að þeim góðgæti og í lok dagsins eru pokar þeirra orðnir troðfullir af ýmiss konar góssi sem þeir rogast með heim. Sjálfur varð ég bara einu sinni svo frægur að leika jólasvein, en ég og mín fjölskylda pössum ennþá upp á að vera örugglega heima þegar von er á jólasveinunum með póstinn á aðfangadag," segir Júlli að endingu. Þá er honum ekki lengur til setunnar boðið, enda bíður vefurinn þess að verða uppfærður svo jóladagatalið haldi dampi. |
|
Jólaminningar eða frásagnir af Jólavef Júlla
Jólaminningar úr Dalvíkurbyggð |