Dagur 19 - Jólavefur Júlla 2012

Í dag er miðvikudagurinn 19. desember. Í nótt kom áttundi  jólasveinninn til byggða "Skyrgámur / Skyrjarmur"
 

 

Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn on´ af sánum
með hnefanum braut.

Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
uns stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

 

Þessi jólasaga er ritgerð eftir barn í grunnskóla og er um Jesús frá
sjónarhóli barna.


Sá sem hefur orðið frægastur úr Biblíunni er Jesús. Hann var frá Nazaret í Egyptalandi. Hann fæddist á jólanótt í fjósi, vegna þess að öll hótel voru full. Mamma hans hét María og stjúppabbi hans Jósef. Hann var ekki raunverulegur pabbi Jesú, því María var áður gift einhverjum Gabríel, en hann var floginn í burtu. Þegar Jesús var nýfæddur áttu þrír
jólaveinar leið fram hjá fjósinu og þegar þeir sáu litla barnið, náðu þeir í nokkrar jólagjafir og reykelsi handa hjónunum, en það veitti sannarlega ekki af  þar sem þau höfðu ferðast allan daginn á asna, af því að það átti að telja  þau. Jesús var ekki skírður fyrr en seinna, því í þá daga voru börnin ekki skírð fyrr en þau voru orðin fullorðin og höfðu lært að synda, því  þau voru nefnilega alveg færð í kaf. Þegar Jesús varð átta ára gaf pabbi hans honum Biblíu, og þegar hann var tólf ára kunni hann hana utan að, og það  var vel af sér vikið, því í þá daga var Biblían svo stór að það varð að vefja hana upp á kefli. Hann var líka duglegur að læra sálma. Hann gat galdrað þegar hann var bara smá strákur. Hann var reyndar mesti galdramaður sem uppi hefur verið. Jesús var mjög sérstakur. Hann gekk um og lagði gátur fyrir fólk sem það átti að reyna að leysa, en það tókst sjaldan. Hann gat líka gengið í gegnum vatn og eld, án þess að það kæmi við hann. Hann gat líka gengið á vatninu. Það var á Genezaretvatni, þar sem hann gekk út að fiskibáti til kaupa fisk. Pabbi minn segir að það hafi verið ís á vatninu, en hann trúir heldur ekki á Guð og Jesú. Jesús gerði líka mikið fyrir umferðina. Einu sinni þegar hann var á gangi í Jerúsalem, mætti hann lömuðum manni sem lá í rúminu sínu úti á  miðri götu, Jesús sagði ; Tak sæng þína og gakk. Maðurinn gerði það og þá gátu bílarnir aftur komist leiðar sinnar. Svo var það ekkja sem átti son, en ég bara skil ekki hvernig hún gat átt hann fyrst hún var ekkja. Jesús tók son ekkjunnar í kraftaverkameðferð og við það varð hann mjög vitur, sagði  fólk. Eitt af því merkilegasta sem Jesús gerði var að stjórna borðhaldinu í eyðimörkinni. Það var þegar þessar 5 þúsund manneskjur stóðu aleinar úti í eyðimörkinni án þess að eiga vott né þurrt. Þá gerði Jesús kraftaverk og allir fóru saddir í rúmið. Jesús gat ekki allaf komið fram í eigin persónu. Stundum var hann dulbúinn sem hirðir, og einu sinni kom hann fram undir fölsku nafni.

 

Þetta setti ég inn 2005.
Nú hafa svo margir sagt að það vantaði mynd af eiganda jólavefsins og af því að það eru að koma jól þá er best að láta það eftir ykkur :) Þarna eru ég og yngsta snúllan mín hún Valgerður María út í jólasnjónum á Dalvík á aðventunni 2005.
 (Ljósmynd  Gréta Arngrímsdóttir )



Bros dagsins.................


Bros er ódýrasta og besta yngingarkremið. H.T

 

Jólasveinamynd dagsins (19)

 

Halló allir! Skyrgámur mætti í nótt, rumurinn sá. . Í mallanum í dag eru skemmtilegar jólafrásagnir af Jólavef Júlla.  Snæfinnur.

Þessa skemmtilegu sögu fékk ég senda um helgina Gugga og Sigrún Erla eru höfundarnir (10 ára)

Kýrin og nautið

 

Einu sinni var kýr sem hét Stjarna. Það var alltaf verið að stríða henni. Dýrin sögðu að hún væri stjarna á himnum sem ætti ekki að vera í skólanum.

Einn dag var Stjarna að úti að ganga og hitti naut. Nautið sagði; það er fallegur dagur í dag er það ekki? Jú sagði Stjarna og roðnaði.

Nautið keppti í boxi og spurði Stjörnu: hvað heitirðu? Stjarna, sagði kýrin. Má bjóða þér á boxleik í kvöld spurði nautið Stjörnu. Já takk svaraði hún.

Um kvöldið kom nautið og sótti Stjörnu. Nautið var að keppa  í boxi og vann og þau tvö komu í fréttunum um kvöldið.

Næsta dag þegar Stjarna ætlaði í skólann spurðu allir hvort að hún gæti leikið. Stjarna skildi ekki neitt í því og spurði af hverju allir vildu leika við hana núna Dýrin svöruðu að af því hún kom í fréttunum með svalasta nautinu langaði þau til að leika við hana.

Stjarna hugsaði málið og var ekki alveg sátt við þetta svar.  Þá kom allt í einu önnur kýr til hennar sem hún þekkti ekki mikið og sagði við hana. Mér er alveg sama hvort að þú komst í fréttunum eða ert með svalasta nautinu, mér hefur alltaf líkað við þig og fundist þú skemmtileg og því langar mig til að við verðum vinkonur. Stjarna varð voða glöð og ákvað að hún vildi vera vinkona hennar. Þessi nýja vinkona hennar hét Skjalda og upp frá þessu urðu þær bestu vinkonur sem aldrei stríddu hvor annarri eða öðrum dýrum.

Á aðventunni 2002 fékk Jólavefurinn  þetta skemmtilega bréf , mér fannst það svo gott og nauðsynlegt fyrir okkur að hugsa um innihaldið og þetta á nú ekki íst við í dag.

Ylfa og Björgúlfur Takk fyrir þetta.

Hæ elsku Júlli og takk fyrir vinninginn. Við erum svooooo glöð, og ætlum að gefa (eins og við vorum búin að lofa hvoru öðru, við Björgúlfur) vinninginn til mæðrastyrksnefndar. Við gerðum svona samkomulag í byrjun des, að taka þátt í allskyns happadrættum og netleikjum, og gefa alltaf vinninga (ef einhverjir yrðu) til góðgerðamála. Það var elsku drengurinn minn sem stakk upp á þessu, því að bæði í sunnudagaskólanum, svo og í skólanum hefur undanfarið verið rætt mikið um fátækt. Núna undanfarið hefur Björgúlfur verið afskaplega upptekinn af þessu og hefur til að mynda sett alla vasapeninga sína í hjálparstofnunarbaukinn frá kirkjunni, og linnir ekki látum fyrr en allir gestir sem til okkar koma hafa sett eitthvað smáræði í baukinn!!! Ég hélt að þetta yrði kannski til þess að við hættum að fá gesti, :) en svo fór nú ekki sem betur fer.

Mér finnst þetta svo yndislegt, og held að við foreldrar ættum að taka börnin okkur til fyrirmyndar. Við erum svo upptekin af okkar eigin lífi, að við höfum gleymt að rækta með okkur það sem okkur var öllum gefið í vöggugjöf. Samúðina. Hana hafa börnin okkar í sér og við eigum að hlú að því.

Bless og takk fyrir okkur  YLFA og BJÖRGÚLFUR .

 

Ein álfa, huldufólks eða jólasaga á dag

 

BLÁA  GLASIÐ
Benidikt hét prestur í Aðalvík á Hornströndum sem síðar fluttist að Einholti á Mýrum. Hefur Kristín dóttir hans sagt eftirfylgjandi sögu eftir eigin sögusögn föðurs síns sjálfs. En Kristín hefur aftur sagt (orðin þá mjög gömul) skynsömum nútíðarmanni þessa sögu sem nú segir:

Um vorið þegar þau fluttu að Einholti var Kristín á sjötta árinu. Þau fóru norðanlands og hafði prestur marga hesta með áburði, og er þau komu norður í landið hagaði svo leið að þar þurfti lestin að fara út fyrir háls einn, en prestur nennti ekki að ríða sama veg, heldur reið þvert yfir um einhestis; og sem hann hafði riðið spölkorn eftir hálsinum með litlum læk sér hann hinumegin læksins bæ og dettur til hugar að skreppa heim að fá sér ögn í staupinu, því hann þótti drykkfelldur.

Og sem hann kemur á hlaðið klappar hann á dyr. Þar kemur út kona lagleg ásýndum. Hann spyr hana nafns; hún kveðst heita Signý. Hann biður gefa sér að drekka; hún færir honum trébarða mjólk (skekna) í pottkönnu. En sem hann atlar að kveðja konuna biður hann hana að láta nú sjá og gefa sér ögn af brennuvíni; hún gengur inn og kemur aftur með blátt pelaglas fullt af víni.

Prestur þakkar þessa gjöf innilega konunni því hún gaf honum glasið með öllu, en það var ei gjört sem önnur glös, það var með stórum bólum alsett og í hverri bólu var tígulmyndað glerlauf og lék þar á þolinmóð svo þegar maður hrærði glasið léku öll þessi lauf á glasinu.

Og sem prestur hefur nú kvatt konuna heldur hann leiðar sinnar austur af hálsinum. Er þá lest hans komin þar að bænum og farin að hvíla. Prestur er nú orðinn hýr af víninu og segir fólkinu á bænum frá gjöf Signýjar, konunnar þar upp á hálsinum. Það fer að hlæja að presti og sveia úr honum heimskunni, en hann sver og sárt við leggur að þar standi bær og þar búi kona. En fólkið narrar hann því meir og rengir sögu hans.

Þá sýnir prestur glasið og biður það nú að þræta fyrir það hann hafi sagt, en allir undruðust glasið og tilbúning þess. Samt segir það presti í fullri alvöru að þar sé engin byggð og enginn bær til, en prestur kveðst aldrei trúa því.

Og við það hélt hann áfram leiðar sinnar að Einholti og var þar lengi prestur, en eitt sinn braut hann sitt góða glas á Almannaskarði, þá mjög víndrukkinn, en kom þó með það heim og tók Kristín dóttir hans brotin og varðveitti eitt af þeim sína tíð.

Og hjá henni sáu þeir menn brotið sem oss hafa sagt þessa sögu.


 

 Netútgáfan